Í skýrslunni er greint frá rannsóknum á áhrifum vibrunar á einsleitni steypu, loftbólur í yfirborði, og reyna að meta hvort hætta sé á að venjulega C 25 steypa sem lögð er í veggi aðskilji sig ef sigmál hennar er komið yfir 200 til 220 mm.
Einnig er greint frá samanburði á tveimur gerðum af steypuvíbratorum. Annars vegar venjulegum víbratorum og hins vegar hátíðnivíbratorum. Reynt er að meta hvort munur er á aðskilnaði fylliefna, fjölda loftbólna á veggflötum, og einnig hvort munur er á þrýstiþoli og rúmþyngd borkjarna úr veggjunum eftir því hvor gerð af víbratorum er notuð.
Helstu niðurstöður eru:
Það er augljóst út frá niðurstöðum þessarar rannsóknar að vibrun steypunnar hefur mjög mikil áhrif á endanleg gæði hennar. Til að ná fullum styrk, án steypuhreiðra þarf töluverða vibrun, en ef steypan er vibruð of mikið á sér stað aðgreining sem veldur m.a. skertu frostþoli hennar og líklega veikleika í efsta hluta veggjar sem í sumum tilvikum væri æskilegt að hreinsa burt.
Styrkur sívalninga gefur þokkalega mynd af styrk steypunnar í mannvirkinu. Töluverðra sveifla er þó að vænta.
Kjarnar höfðu frá 85 til 100 % af styrk steyptra staðlaðra sívalninga Augljóst að vanda þarf mikið til vinnu við kjarnanna til að þeir séu eins og steyptir sívalningar. Því eru viðmið staðla um að þeir séu 85 % af steyptum sívalningum eðlileg (t.d ÍST EN 13791:2007)
Hægt er að leggja niður steypu í sigmáli 200 til 220 án aðgreiningar. Lykilatriði er þó að vibrun sé aðlöguð að bleytu steypunnar, enda má lítið út af bregða varðandi víbrun og hér er ekki tekið tillit til falls steypu. Stíf steypa sé vibruð meir en blaut.
Þótt steypa væri bleytt í 280 mm hélt hún stöðugu loftinnihaldi.
Svo virðist sem hátíðnivibratorar séu heldur kraftminni en venjulegir vibratorar. Þeir hafa hins vegar skv. rannsókninni heldur minni tilhneigingu til að aðgreina steypuna. Vanda þarf þó val þeirra.
Að losna við loftbólur og fá fallega sjónsteypu er auðveldast með blautri steypu og mikilli vibrun. Í venjulegri C25 steypu hefur átt sér stað aðgreining þegar bólur eru komnar undir mörk. Nauðsynlegt er því að nota í sjónsteypu sérhannaða steypu.