Stofnfundur félagsins

Stofnfundur Steinsteypufélags Íslands haldinn að Hótel Sögu 11. des 1971.

Óttar Halldórsson setti fundinn kl. 14.20, laugardaginn 11.des 1971 að Hótel Sögu. Hann bað Karl Ómar verkfræðing um að taka að sér fundarstjórn og Magnús Inga Ingvarsson fundarritun. Karl Ómar Jónsson lísti yfir að gengið yrði til dagskrár og gaf Óttari Halldórssyni orðið. Hann rakti aðdraganda stofnfundarins og sagði m.a. að byggingadeild Verkfræðingafélagsins hefði tekið málið upp og stofnað undirbúningsnefnd.Tilgangur félagsins væri m.a. skipulagning fyrirlestra og fræðslurita, nefndi Óttar að m.a. gæti I.Þ.S.Í og Húsnæðismálastofnun ríkisins orðið til aðstoðar við útgáfu fræðslurita. Einnig námskeið fyrir þá er við steypuframkvæmdir starfa, í öðru lagi styðja rannsóknir á steinsteypu og skyldum efnum.
Í þriðja lagi stuðla að tæknilegum umbótum og stöðlum innan steinsteypuiðnaðarins. Í fjórða lagi fylgja eftir hæfni og menntunarkröfum meðal þeirra er við steypuframleiðslu starfa.
Í fimmta lagi taka þátt í samstarfi við aðrar þjóðir.Á undirbúningsfund að stofnun félagsins sl. vor komu fulltrúar um 20 aðila og voru þeir einróma um þörf félagsins. Að lokum bar Óttar fram tillögu sem borin var fram af undirbúningsnefnd;Fundur ýmissa aðila byggingaiðnaðarins, haldinn að Hótel Sögu í Reykjavík 11 desember 1971 og sem til er boðað með fundarboði dags. 30 nóvember 1971, samþykkir að stofna félag til framdráttar steinsteyputækni á Íslandi.
Stefán Ólafsson
Óttar P. Halldórsson
Jón Birgir Jónsson
Engar umræður urðu um tillöguna og skoðaðist hún því samþykkt.Karl Ómar Jónsson las því næst upp drög að lögum félagsins og gaf því næst orðið frjálst. Sigurjón Sveinsson kom með þá breytingartillögu á 1. gr, að tekið yrði fram að lögheimili þess yrði í Reykjavík. Því næst var frumvarpið borið upp til atkvæða í heild, var það samþykkt í heild.
Undirbúningsnefndin bar því næst upp tillögu að stjórn félagsins og voru þeir samþykktir samhljóða, en þeir eru:
Birgir Frímannsson verkfr.
Hörður Jónsson verkfr.
Sigurður P. Kristjánsson tæknifr.
Sigurjón Sveinsson arkitekt
Ólafur H. Pálsson múrarameistari.
Stjórnin skipti með sér verkum.Hörður Jónsson talaði um staðlana. Ræddi hann um gildi þeirra og benti m.a. á að Norðmenn hefðu gefið út gagnmerka bók um steypustaðla og benti á að það gæti verið verðugt verkefni félagsins að gefa hana út á íslensku. Ræddi hann síðan um ýmiss störf I.Þ.S.I á stöðlum.Á fundinum gerðust 58 aðilar stofnfélagar að Steinsteypufélagi Íslands. Endurskoðendur voru kjörnir Þórður Jasonarson og Jóhannes Guðmundsson.Birgir Frímannsson sagði að í U.S.A væri gert ráð fyrir að á næstu 30 árum þar í landi, þyrfti að byggja jafn mikið og á áður liðnum 300 árum. Benti hann á síaukna notkun steinsteypu í heiminum. Benti hann á möguleika á þýðingu rita sem fjalla um steinsteypu. Benti hann einnig á eigið efni hérlendis, rannsóknir á nýjum stöðum, einnig vék hann orðum sínum að að íslenska hrauninu. Væri þar ef til vill rannsóknarefni með tilliti til steypu. Ræddi hann einnig um hina gífurlegu flutninga sem eiga sér stað við gerð steinsteypu. Birgir varaði einnig við ofnotkun á loftblendi. Einnig talaði hann um möguleika á mótun steinsteypu með því að setja lista og borð í mótin. Birgir ræddi um ýmsar gerðir gólfa (jarðgólfa), járnbentra og ójárnbentra, ýmsa möguleika í sambandi við upplýsingar og fróðleiksauka. Að lokum talaði hann um íslensku efnin og þá miklu möguleika sem þau bjóða upp á.
Guðmundur Einarsson óskaði nýkjörinni stjórn og félaga til heilla og sagði að það væri tákn Íslendinga að það væri fyrst árið 1971 að stofnað væri félag bak við efni sem notað væri í 95% af byggingum okkar.
Talaði hann síðan nokkuð um sement og benti á að ekki mætti eiga sér stað að við drægjumst aftur úr hvað það snerti. Ræddi hann síðan um steinsteypta vegi og taldi að Vesturlandsvegurinn yrði síðasti steypti vegurinn á Íslandi þar sem enginn væri til staðar til að halda uppi steinsteypu. Taldi hann að félagið væri stofnað 40 árum á eftir tímanum.
Svavar Pálsson lýsti yfir ánægju sinni með stofnun félagsins og taldi nauðsyn þess að kynna steinsteypuna á öllum sviðum alveg frá teikniborðinu þar til mótin væru rifin utan af steypunni. Taldi hann að Iðnaðarmálaráðuneytið og Sementsverksmiðjan hefðu vilja til að leggja málin hlutlægt fyrir þe. án annarlega áhrifa. Gerðar hefðu verið breytingar á sementsframleiðslunni og hefði það gefið þá ábendingu að auka mætti styrkleika sementsins allt að 10% en með auknum tilkostnaði. Ítrekaði hann að lokum vilja stjórnar Sementsverksmiðju Ríkisins til að finna lausn á sementsvandamálinu.
Óttar P. Halldórsson kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið áður á fundi með jafnmörgum aðilum úr byggingariðnaðinum og taldi það tímanna tákn að vinna saman. Kvaðst hann undanfarið hafa verið í sambandi við systurfélög á Norðurlöndum og hafa mikið af af allskonar gögnum sem hann myndi koma til nýju stjórnarinnar.
Magnús P. Árnason sagði að þeir sem nú vinna að niðurlögn steypu væru skóladrengir á sumrum og svo menn sem komnir eru yfir miðjan aldur og væri það ekki lítill þáttur að halda jafnvægi milli þeirra sem vinna með höndum sínum og þeirra sem vinna við teikniborðið. Taldi hann það óheppilegt að steypuflokkar væru á þönum úr einum bæjarhlutanum til annars til að leggja niður steypu.
Karl Ómar þakkaði mönnum komuna og góða fundarsetu, óskaði hann stjórninni góðs gengis og sagði fundi slitið kl 16.40Magnús Ingi Ingvarsson
Fundarritari