Fréttir af starfi félagsins

​Í haust tók við ný stjórn Steinsteypufélagins. Aðalbreytingar á stjórn frá því í fyrra eru þær að Karsten Iversen hætti í stjórn og inn í staðinn kom Börge Johannes Wigum. Lárus Helgi Lárusson færði sig úr varastjórn yfir í aðalstjórn og Guðbjartur Jón Einarsson fór úr aðalstjórn yfir í varastjórn. Á fyrsta fundi félagsins skipti stjórnin með sér verkum. Börge var kosinn formaður félagsins og Ingunn varaformaður. Erla Margrét Gunnarsdóttir var áfram ráðin framkvæmdastjóri félagsins.

 
Starf félagins hefur verið talsvert öðruvísi í ár heldur en undanfarin ár. Aðalfundurinn var ekki haldinn fyrr en í haust og hafa allir stjórnarfundir verið haldnir rafrænt. Það hefur gengið glimrandi vel og því var ákveðið að prufa að halda opinn rafrænan fund í fyrsta sinn í sögu félagsins þriðjudaginn 24. nóvember síðastliðinn.

Yfirskrift fundarins var “Steinefni í steinsteypu” og voru fyrirlesarar þrír: Börge Johannes Wigum var fundarstjóri og reið einnig á vaðið og ræddi um framleiðslu og notkun steinefna í steinsteypu. Hann setti taktinn strax í byrjun með að tala um mikilvægi þess að þegar rætt erum steinefni að kalla þau ekki fylliefni eins og áður var gert. Þar á eftir kom Alexandra Björk Guðmundsdóttir, jarfræðingur hjá BM Vallá og talaði um prófunaraðferðir og kröfur til steinefna í steinsteypu. Að lokum tók til máls Andri Jón Sigurbjörnsson jarðfræðingur hjá Steypustöðinni um notkun og áhrif mismunandi steinefna í ferksteypu. Fyrirlestrana má nálgast hér að neðan á pdf formi og einnig er félagið nú komið með youtube rás og þar eru upptökur af tveimur fyrirlestrunum.

Óhætt er að segja að frábær mæting var að á þennan fyrsta rafræna fund félagsins en um 35 manns mættu og skapaðist mjög góð umræða eftir fyrirlestrana. Var félagið hvatt til að halda fleiri rafræna fundi og var sérstaklega óskað eftir fundi um umhverfismál og umhverfisáhrif steypu.

Það sem er helst á döfinni hjá stjórninni þessa dagana annars hefur verið útsending á félagsgjöldum, umræður um framtíð rannsókna og áframhaldandi vinna í menntamálum. Að venju er svo vinna hafin við að undirbúa Steinsteypudaginn og safna greinum í Sigmál, fréttabréf félagsins. Þess ber helst að nefna að á næsta ári verður félagið 50 ára og því tækifæri til að vera sýnilegri og halda áfram og gera betur í því góða starfi sem félagið hefur verið að sinna.

Steinefni í steinsteypu, fyrirlestrar:

Framleiðsla og notkun steinefna í steypu
– Børge Johannes Wigum, jarðverkfræðingur, Hornsteinn/HeidelbergCement Northern Europe.

Prófunaraðferðir og kröfur til steinefna í steinsteypu 
– Alexandra Björk Guðmundsdóttir, jarðfræðingur – BM Vallá.

Notkun og áhrif mismunandi steinefna í fersksteypu
– Andri Jón Sigurbjörnsson, jarðfræðingur – Steypustöðin.

Deila á samfélagsmiðlum: