Fréttir í apríl

Kæru félagar,

Það er ýmislegt áhugavert framundan nú á vormánuðum eða hefur nú þegar átt sér stað. Umræður, skoðanaskipti og tengsl eru eitt af því mikilvægasta í starfsemi félagsins. Til samræmis við þetta hefur stjórn skipulagt steypuspjall sem verður óformlegt spjall um heima og geima og er fyrst og fremst vettvangur til tengslamyndunar. Hugmyndin er sú að þetta verði reglubundnir viðburðir þar sem allir eru velkomnir og félagsaðild ekki skilyrði. Fyrsta steypuspjallið var föstudaginn 22. mars s.l. og þótt það væri ekki fjölmennt voru viðstaddir ánægðir með framtakið.

Eftir hádegi þriðjudaginn 14. maí verða síðan tveir viðburðir og hvetjum við félagsfólk til að taka frá tíma fyrir þá. Fyrst ber að nefna að stjórn er að skipuleggja heimsókn til Björgunar í Álfsnesvík, þriðjudaginn 14. maí kl. 14.30 – 16.00. Í Álfsnesvík er ný aðstaða fyrir starfsemi fyrirtækisins eftir að það flutti af Sævarhöfðanum. Áhugavert verður að sjá hvernig það hefur verið skipulagt en á meðal nýrra mannvirkja má nefna höfn. Heimsóknin verður nánar auglýst síðar.

Síðan verður aðalfundur félagsins þennan sama dag, 14. maí kl. 17.00 – 18.30. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar til samræmis við lög félagsins en takið daginn frá! Við minnum á að skv. lögum félagsins þurfa tillögur sem leggja á fram á aðalfundinum að berast stjórn fyrir 15. apríl n.k.

Það er gaman að geta þess að Einar Einarsson, BM Vallá, hefur nýlega tekið sæti í einni af undirnefndum CEN staðlaráðsins sem fjallar um frostþolsprófanir. Frétt verður sett fljótlega á heimasíðu félagsins.

Miðvikudaginn 28. febrúar s.l. var veffundur á vegum ESCN (Concrete and sustainability – an update on ongoing efforts in Europe – Part 2), þar sem formaðurinn, Börge J. Wigum, var einn stjórnenda. Upptökur er að finna á: www.ecsn.net. Annar veffundur á vegum ECSN er síðan fyrirhugaður 10. maí n.k. þar sem farið verður yfir kosti ECSN og hvers má vænta af þessu samstarfi, hér er hlekkur til að skrá sig á viðburðinn.

Núna síðar í apríl hittast norrænu steinsteypufélögin í Osló. Á þessum fundi verða Börge J. Wigum formaður og Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, framkvæmdastjóri með norrænum kollegum í RCNCF og NCF. Dórótea Höeg Sigurðardóttir, er nýr fulltrúi okkar í norrænu vísindastarfi verður einnig með okkur. Sjá nánar um NCF á: www. https://nordicconcrete.net/

Að lokum má geta þess að danskir félagar okkar halda sinn Steinsteypudag í september. Ef einhver hefur áhugavert efni sem hann langar að kynna þar má sá hinn sami hafa samband – [email protected] Við vitum að Danirnir eru sérlega áhugasamir að heyra af tilraunum með ösku.

Kveðja,

stjórnin

Deila á samfélagsmiðlum: