Steinsteypuverðlaunin 2024

Sjóböðin Geosea

Sjóböðin Geosea á Húsavík hlutu Steinsteypuverðlaunin 2024 og þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Steinsteypudeginum 2024 föstudaginn 2. febrúar 2024 á Grand hótel. Það er Steinsteypufélag Íslands sem stendur að og veitir þau.

Geosea sækir innblástur sinn í jarðfræði svæðisins en falleg lagskipting í sjávarhömrum Skarfahillu endurspeglast í áferð steyptra veggja baðstaðarins. Við val á mannvirki er horft til þess að saman fari frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi og þykir aðilum verks hafa tekist vel til í þessu efni við hönnun og framkvæmd Geosea. Það er mikið ánægjuefni að sjá þann metnað sem aðstandendur hafa lagt í verkið.

Verðlaunin eru veitt mannvirkinu og öllum þeim komu að hönnun og framkvæmd. Um hönnun sáu Basalt arkitektar og VERKÍS hf., framkvæmd var í höndum Trésmiðjunnar Rein og steinsteypan kom frá Steinsteypi. Eigandi eru Sjóböð ehf. Er öllum aðstandendum þess óskað innilega til hamingju.