Steinsteypuverðlaunin 2015

M-laga sjónsteypa í tengibyggingu íþróttamannvirkja í Grindavík

Steinsteypuverðlaunin 2015 voru veitt í fjórða sinn við hátíðlega athöfn á Steinsteypudeginum 2015 á Grand Hóteli þann 20. febrúar 2015 en þau eru veitt fyrir mannvirki þar sem saman fer frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi.

Að þessu sinni var það M-laga sjónsteypa í tengibyggingu íþróttamannvirkja í Grindavík sem hlaut verðlaunin. Álit dómnefndar er að þessi útfærsla sýni vel hvernig móta má steinsteypuna og sé skemmtileg tilbreyting við hið hefðbundna form. Byggingin tengir saman íþróttahús, sundlaug og íþróttasvæði utanhúss og er því eins og miðstöð eða hjarta svæðisins og örvar samnýtingu og tengsl þeirra bygginga sem fyrir eru. Það er Grindavíkurbær sem er eigandi verksins. Um hönnun sáu Batteríið arkitektar og VERKÍS hf., framkvæmd var í höndum Grindarinnar ehf. og Verksýnar en M-laga einingarnar eru Smellinn húseiningar frá BM Vallá. Viðurkenningin er veitt mannvirkinu og öllum þeim komu að hönnun og byggingu.

Valnefnd Steinsteypuverðlaunanna er skipuð eftirtöldum:

Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, formaður nefndar og fulltrúi Steinsteypufélags Íslands
Ólafur H. Wallevik frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Steinþór Kári Kárason frá Listaháskóla Íslands
Björn Marteinsson tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands
Jóhann Einarsson tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands

 

Í rökfærslu dómnefndar segir :

„Nú er aftur komið að því að tíunda gæði þessa efnis, sem er okkur svo sjálfsagt að varla er tekið eftir, nema einhver hafi gerst svo djarfur að fara vel með það. Þetta er okkar ástkæra steypa, steinsteypan, vatn, sandur og sement af ýmsum gerðum og magni með heilum hellingi af íblöndunarefnum til þess að þjóna sköpun meistaranna. Hún er eiginlega mjög nærri frumefnunum þegar við fáum hana til afnota, og þá byrjar ballið, hvað ætlar hún að verða þegar hún harðnar. Það er nefnilega alfarið undir þeim komið sem þekkja hana, eða halda að þeir þekki hana. Hún er, þegar öllu er á botninn hvolft, svo lík ótal þáttum í lífi okkar, mótunin hefst við einskonar samruna, samruna þekkingar, visku og natni, ásamt alúð og nákvæmni.

Hlutverk okkar hinna er svo að hygla þeim sem þora, geta og kunna að forma og móta hana af djörfung og frumleika. En það er ekki bara frumleikinn, heldur ekki síður einfaldleikinn, eins og segir í máltækinu, sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Endurtekning góðra eininga skapar sterka heild.

Hjá Grindavíkurbæ hafa stjórnendur ákveðið, að stöku verkefni skuli fá sérstaka meðhöndlun hönnuða, jafnvel arkitekta, og þá skal það verða ögn betra, Það er sem betur fer hluti af metnaði arkitekta, að gera örlítið betur. Í einu slíku verkefni hafa hönnuðir fengið það erfiða hlutskipti, að tengja saman þrjú íþróttasvæði, sundlaug, íþróttahöll og fótboltavöll. Í þessu tilviki var það meira en bara tenging, að auki var óskað eftir búnings og baðaðstöðu, ásamt funda og skrifstofurýmum.

Arkitektunum hugnaðist að nýta sér forsteyptar einingar, sem þurftu að vera þeim eiginleikum gæddar, að vekja athygli. Þær eru ekki bara tenging ólíkra bygginga með fyrirfram gefnum hlutverkum á ýmsum aldri, heldu þurfa þær að kalla á gesti og bjóða þá velkomna að höfuð inngangi svæðisins, sem krefst smekkvísi, svæðið er jú hvatning bæjarfélagsins til hreysti og heilbrigði og mjög háttskrifað í hugum flestra.

Þetta hefur tekist með myndrænum og opnum steypueiningum í háum gæðaflokki, þar sem steypan er lituð og formuð í fronti sem teygir sig á milli ólíkra stíla, og heldur svæðinu saman. Aftan við einingarnar er svo skreytt með sterkum upplýstum litum í gegnum gler, sem undirstrikar enn frekar efniskennd steypunnar og form eininganna, þar sem þær njóta sín til fulls.

Það er álit valnefndarinnar að þarna hafi steinsteypan náð að sýna enn eitt ágæti sitt með góðri hönnun.“