Steinsteypuverðlaunin 2013

Endurgerð Nýja Bíós

Steinsteypuverðlaunin 2013 voru veitt í þriðja sinn við hátíðlega athöfn á Steinsteypudeginum 2013 á Grand Hóteli þann 15. febrúar 2013. Að þessu sinni hlaut Nýja bíó verðlaunin sem er nýtt hús en byggt í anda eldra húss. Að áliti dómnefndar fær steinsteypan, formuð af fallegu handverki, að njóta sín.

Hönnuðir Nýja bíós eru Studio Granda og VERKÍS, um framkvæmd sá Eykt, steinsteypan kom frá Steypustöðinni og verkkaupi er Reykjavíkurborg.

Árið 2007 brunnu tvö hús á horni Austurstrætis og Lækjargötu og var efnt til opinnar samkeppni um framtíðarskipulag svæðisins. Arkitektastofurnar Argos, Gullinsnið og Studio Granda báru sigur úr bítum og í framhaldinu unnu þær í sameiningu deiliskipulag fyrir reitinn. Þær skiptu svo með sér verkum við uppbygginguna og kom það í hlut Studio Granda að byggja hús á þeim stað þar sem áður stóð Nýja Bíó.

Nýja bíó var um margt merkilegt hús. Það var steinsteypt, byggt árið 1918, sem kvikmyndahús, Það hafði ýmis sterk einkenni, undir áhrifum Jugendstil, sem birtust fyrst og fremst í framhlið hússins. Nýja bíó skemmdist illa í eldi árið 1998 og var í framhaldinu rifið.

Þegar kemur að endurgerð húsa sýnist sitt hverjum um aðferðirnar sem er beitt. Það er ljóst að ekki er um nákvæma endurbyggingu að ræða heldur horfa arkitektarnir til þess sem var á sjálfstæðan hátt og taka til þess afgerandi afstöðu. Fjölbreytt notkun steinsteypu og þá ekki síst mótagerð, leikur lykilhlutverk í að ná fram hughrifum og skapa minningu um það sem var.

Í rökfærslu dómnefndar segir :

„Útfærsla byggingarinnar, efnisnotkun og frágangur deila er einstaklega vandaður og til fyrirmyndar fyrir steinsteypt hús. Í deilunum skín bæði saga hússins jafnt sem tungutak nútímans í gegn. Á norðurveggnum, sem er megin ásýnd hússins, eru stórir fletir með borðaáferð og grófleika fyrri tíma. Þessir grófu fletir eru svo rammaður inn af þakbrún, köntum og gluggaumgjörðum sem einkennast af verkþekkingu, þrívíðri mótun og eggsléttri áferð, dagsins í dag en visa um leið sterklega til eldri byggingar.

Stigahús milli Nýja Bíós og Lækjargötu er steypt og að innan er sjónsteypa, bæði á veggjum og loftum þess. Sama á við um flóttastigahús til vesturs.  Fínleg borðaáferð, skarpar útfærslur og ljós steypa gefa þessum innirýmum mjög fallegt og vandað yfirbragð.

Allar útfærslur og vinna er vönduð og einkennist af metnaði þeirra sem að verkinu komu, hvort sem um er að ræða arkitekta, verkfræðinga, verktaka eða verkkaupa. Samvinna og gagnkvæmur skilningur þessara aðila er grundvöllur þess að vel takist til. Í þessu tilfelli er það raunin og því er þessi bygging vel að því komin að hljóta steinsteypuverðlaunin árið 2013“.

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti fulltrúum verðlaunahafanna viðurkenningarskjal ásamt verðlaunagrip. Ellý Katrín Guðmundsdóttir, borgarritari tók við verðlaununum fyrir hönd Reykjavíkurborgar.