Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Steinsteypuverðlaunin 2011 á Grand hótel Reykjavík, föstudaginn 18.febrúar að viðstöddu margmenni á Steinsteypudeginum 2011. Þetta var í annað sinn sem verðlaunin voru afhent en árið áður voru það göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut sem fengu viðurkenninguna.
Steinsteypuverðlaunin eru veitt fyrir mannvirki þar sem saman fer frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi.SundlaugináHofsósi hlaut verðlaunin í ár en það voru þær Steinunn Jónsdóttir og Lilja Pálmadóttir sem gáfu Sveitarfélaginu Skagafirði sundlaugina ári áður. Um hönnun mannvirkisins sáu Basalt arkitektar, Va arkitektar og Verkís en framkvæmd var í höndum Sveinbjörns Sigurðssonar hf. Viðurkenninguna hlaut mannvirkið og allir þeir samstarfsaðilar sem komu að hönnun þess og byggingu.
Ólafur Ragnar sagði, við þetta tilefni, einkar ánægjulegt að sjá hvorutveggja breidd í vali mannvirkja og það óháð staðsetningu. Valið var í höndum nefndar sem skipuð var fulltrúum frá Arkitektafélags Íslands, Verkfræðingafélaginu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Listaháskólanum undir forystu Steinsteypufélagsins. Sigríður Sigþórsdóttir frá Basalt arkitektum tók á móti verðlaununum sem þetta árið voru styrkt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íbúðalánasjóði og Mannvirkjastofnun.