Steinsteypuverðlaunin 2010

Göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut

Á hinum árlega Steinsteypudegi sem haldinn var föstudaginn 19.febrúar 2010, afhenti forseti Íslands Steinsteypuverðlaunin 2010 fyrir framúrskarandi steinsteypt mannvirki frá síðustu fimm árum.

Alls bárust tilnefningar um 22 mannvirki frá ýmsum aðilum innan byggingageirans. Valið annaðist nefnd sem var skipuð fulltrúum Arkitektafélagsins, Verkfræðingafélagsins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Listaháskólans undir forystu Steinsteypufélagsins. Til grundvallar lá m.a. að mannvirkið væri framúrskarandi vegna arkitektúrs, verkfræðilegra lausna og handverks.

Af mörgum sérlega góðum tilnefningum sem bárust urðu göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut fyrir valinu. Bæði hönnun og handverk eru til fyrirmyndar og þykja þær því verðugar þessarar viðurkenningar.

Það voru fulltrúar verkkaupanna Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar, arkitektanna Studio Granda, verkfræðihönnuða frá Eflu og vektakanna Háfells og Eyktar sem veittu verðlaununum móttöku.

Það var að frumkvæði Dr. Ólafs H. Wallevik hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem stjórn Steinsteypufélags Íslands ákvað að velja steinsteypt mannvirki ársins en þetta er í fyrsta skiptið sem verðlaunin eru veitt. Stefnt er að því að verðlaunin verði veitt árlega hér eftir.

Steinsteypuverðlaunin 2010 voru styrkt af Íbúðalánasjóði og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.