Steinsteypuverðlaun 2025 | Óskað eftir ábendingum um mannvirki

Steinsteypufélag Íslands leitast stöðugt við að vekja athygli á mikilvægi steinsteypu í umhverfi okkar, enda er steinsteypa eitt helsta byggingarefni Íslendinga. Liður í þeirri viðleitni hefur verið að kalla eftir ábendingum vegna Steinsteypuverðlauna en viður­kenningin er veitt mannvirki á Íslandi þar sem saman fer áhugaverð og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi.

Leiðarljósið er að mannvirkið:   

  • sýni steinsteypu á áberandi hátt,
  • sé framúrskarandi vegna arkitektúrs, verkfræðilegra lausna, gæða steinsteypu og handverks,
  • búi yfir frumleika og endurspegli þekkingu í meðferð og notkun steinsteypu. Gæði og áferð steinsteypu vega þungt í mati,
  • auðgi umhverfið, inniberi gæði, glæsileik og nytsemi og sýni augljósan metnað í samhengi við umhverfi sitt,
  • sé byggt á síðustu fimm árum og í notkun.

Viðurkenningin verður veitt mannvirkinu og þeim aðilum sem að því standa, svo sem verkkaupa, hönnuðum og framkvæmdaaðilum. Viðurkenningin verður afhent á Steinsteypudeginum þann 28. febrúar 2025.   

Leitað er eftir ábendingum frá verk-, tækni- og byggingafræðingum, arkitektum, listamönnum og iðnaðarmönnum og frá skipulags- og bygginganefndum.

Óskað er eftir því að ábendingar berist félaginu fyrir 15. janúar 2025. Þeim fylgi eftirtalin gögn:

  • heiti mannvirkis, staðsetning og eigandi,
  • verkkaupi,
  • hönnunarteymi,
  • framkvæmdaaðili og – framkvæmdaár,
  • hvenær tekið í notkun,
  • stutt lýsing á mannvirki, kennistærðir og hlutverk steinsteypu,
  • ljósmyndir og, ef vill, myndbönd (teikningar óþarfar).

Tillögur og fyrirspurnir skulu sendast á netfang félagsins: [email protected]

Stjórn Steinsteypufélags Íslands áskilur sér rétt til að meta mannvirki á innsendum gögnum sem og að óska eftir frekari upplýsingum um verkið.

Stjórn Steinsteypufélags Íslands

Deila á samfélagsmiðlum: