Steinsteypudagurinn 2025 var haldinn með pomp og prakt föstudaginn 28. febrúar síðastliðinn. Dagurinn var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík eins og hefur verið hefð fyrir, um100 manns mættu og var frábær stemning í Háteig. Þess ber að nefna að búið er að bóka salinn aftur á næsta ári, svo takið frá 27. febrúar 2026!
Að venju voru fjölbreyttir fyrirlestrar og góðar umræður. Mikið var rætt um vistvæni steinsteypu, tekinn var púlsinn á brýnni þörf á fagfélögum og fyrir þá sem voru á svæðinu þá átti Ásgeir Ásgeirsson hjá TARK arkitektum orð dagsins “alkalískemmdartimburmenn” sem minnti okkur öll á að steinsteypan er besta efnið í byggingargerð á Íslandi þegar vel er af staðið.
Veittar voru tvær nemendaviðurkenningar í ár, Ester María Eiríksdóttir hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið sitt: Skoðun á tengingum milli forsteyptra stöpuleininga, B.Sc. í byggingartæknifræði frá HR og Ingi Sigurður Ólafsson hlaut viðurkenningu fyrir: Tenging milli forsteypts stöpulveggjar og staðsteypts sökkuls með stórum steypustyrktarjárnum, M.Sc.í byggingarverkfræði frá HÍ. Ester var einnig með frábæra grein í Sigmáli og erindi á Steinsteypudaginn.
Steinsteypuverðlaunin 2025 hlaut Landsbankinn og er vel að því kominn. Hönnuðir eru: Nordic Office of Architecture ehf. C. F. Möller, EFLA og VSB. Framkvæmdina sáu ÞG Verk, BM Vallá og ÍAV um.
Takk fyrir okkur og hlökkum til að sjá ykkur að ári.





















