Að þessu sinni er það Snæfellsstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs að Skriðuklaustri, sem hlýtur verðlaunin. Álit dómnefndar er að í þessu verki hafi hönnuðum tekist með efnisvali og formi að skírskota til umhverfisins í ágætu samspili og köllun til náttúrunnar. Tærleiki glersins minnir á himininn eða snævi þakta grund, þegar svo ber undir, málmurinn úr iðrum grjótsins, viðurinn í gróandanum og steinsteypan sem kallast á við melinn. Form byggingarinnar endurspeglar svo jarðfræði og landmótun fjallanna. Það er Vatnajökulsþjóðgarður sem er eigandi verksins. Um hönnun sáu ARKÍS arkitektar, Efla og VERKÍS, framkvæmd var í höndum VHE vélsmiðju og steypan kom frá Steypustöðinni á Egilsstöðum. Viðurkenningin er veitt mannvirkinu og öllum þeim sem komu að hönnun og byggingu.
Valnefnd Steinsteypuverðlaunanna er skipuð eftirtöldum:
Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, formaður nefndar og fulltrúi Steinsteypufélags Íslands
Ólafur H. Wallevik frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Björn Marteinsson tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands
Jóhann Einarsson tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands
Steinþór Kári Kárason frá Listaháskóla Íslands
Það er Steinsteypufélag Íslands sem stendur fyrir verðlaununum. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2010. Eftirtalin mannvirki hafa áður hlotið verðlaunin:
2010 Göngubrýr yfir Njarðargötu og Hringbraut
2011 Sundlaugin Hofsósi
2013 Nýja bíó
2015 M-laga sjónsteypa í tengibyggingu íþróttamannvirkja í Grindavík