Rafrænn fundur í næstu viku og Steinsteypudeginum frestað

Kæru félagar,

Eins og staðan er í samfélaginu í dag þá sjáum við okkur ekki annað fært en að fresta Steinsteypudeginum í ár, venjan er að halda Steinsteypudaginn þriðja föstudaginn í febrúar. Steinsteypudagurinn er ekki bara dagur fullur af áhugaverðum fyrirlestrum heldur einnig frábært tækifæri til að hitta aðra í bransanum og skrafa saman um öll þau áhugaverðu málefni sem verið er að taka á hverju sinni. Meðan staðan er svona þá teljum við að það sé betra að fresta deginum og vonandi getum við haldið daginn hátíðlegan með haustinu.

Þess í stað og í ljósi þess að fyrsti rafræni þemafundur félagsins gekk svona glimrandi vel í nóvember, höfum við ákveðið að halda reglulega rafræna þemafundi og taka á mismunandi málefnum hverju sinni. Næsti þemafundur verður haldinn þriðjudaginn 19. janúar og er yfirskriftin “Er steypan umhverfisvæn?”. Þrír fyrirlesarar munu taka til máls: John-Erik Reiersen hjá Betongelementforeningen í Noregi, Sigríður Ósk Bjarnadóttir hjá VSÓ Ráðgjöf og Smári Valgarðsson hjá BM Vallá. Fundarstjóri verður Ingunn Loftsdóttir, varaformaður Steinsteypufélagsins. Hlökkum við til að sjá sem flesta á þessum næsta þemafundi og munum við halda ykkur upplýstum um næstu fundi sem og önnur störf félagsins með reglulegum fréttum.

Hlekk á fundinn má finna hér og með því að smella á auglýsinguna þá opnast hún í nýjum glugga. 


 
Deila á samfélagsmiðlum: