Lög félagsins
1. Nafn félagsins er Steinsteypufélag Íslands.
Félagið er samtök einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana, sem áhuga hafa á steinsteypu sem og öðrum sementsbundnum efnum.
2. Tilgangur félagsins.
Tilgangur félagsins er auka veg steinsteypunnar og stuðla að hagnýtri og / eða fræðilegri þróun á sviði steinsteypu og steinsteyputækni á Íslandi.
Starfsemi félagsins felur m.a. í sér að:
1. Skipuleggja fyrirlestra og námskeið, gefa út fræðslurit og kynna nýjungar.
2. Stuðla að rannsóknum og tæknilegum umbótum á sviði steinsteypu og sementsbundinna efna.
3. Stuðla að aukinni hæfni og menntun meðal þeirra sem hanna, framleiða og vinna með sementsbundin efni.
4. Vera vettvangur fyrir umræður, skoðanaskipti og upplýsingastreymi.
5. Taka þátt í norrænu og alþjóðasamstarfi á þessu sviði.
3. Félagar.
Félagar geta orðið:
1. Einstaklingar
2. Fyrirtæki, félög og stofnanir
Skráning í félagið er hjá framkvæmdastjóra svo og stjórnarmönnum.
4. Aðalfundur.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda í maímánuði ár hvert. Aðalfund skal boða með minnst einnar viku fyrirvara með auglýsingu á opinberum vettvangi, þar sem dagskrá fundarins er tilkynnt. Opinber birting telst t.d. birting á heimasíðu félagsins og tilkynning á póstlista. Með dagskrá skal kynna tillögur um lagabreytingar og aðrar tillögur sem þurfa samþykki aðalfundar. Tillögur sem félagsmenn hyggjast leggja fyrir fundinn, skulu berast stjórn fyrir 15.apríl. Aðalfundur telst löglegur, ef löglega er til hans boðað. Á dagskrá aðalfundar skulu a.m.k. vera eftirfarandi málefni:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Skýrsla gjaldkera og samþykkt reikninga.
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnarmanna skv. 5. grein.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
6. Ákvörðun félagsgjalda fyrir einstaklinga.
7. Önnur mál.
Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Meirihluti fundarmanna ræður afgreiðslu annarra mála. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum.
Félagar hafa eitt atkvæði hver á aðalfundi. Félög, stofnanir og fyrirtæki skulu tilnefna skriflega einn fulltrúa sem fer með atkvæði þeirra.
Reikningsár félagsins er almanaksár.
5. Stjórn félagsins.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins milli aðalfunda. Stjórnin skal skipuð 5 félagsmönnum sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára og einum varamanni sem situr stjórnarfundi. Ef fleiri en einn stjórnarmaður segir sig úr stjórn á starfsári er stjórn heimilt að kalla út varamann inn í stjórn án kosninga. Hverju sinni skulu þó ekki fleiri en tveir menn ganga úr stjórn. Stjórnarmaður skal ekki sitja í stjórn lengur en fjögur ár í senn. Stjórnin skal svo framarlega sem þess er kostur þannig skipuð, að jafnræðis sé gætt milli félagsmanna m.t.t. mismunandi faglegs bakgrunns. Stjórnina skipa formaður, varaformaður, ritari, og tveir meðstjórnendur. Stjórnarmenn skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Stjórnarstörf eru ólaunuð.
Stjórninni er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og semja við hann um laun. Framkvæmdastjóri sér m.a. um daglegan rekstur félagsins og er jafnframt gjaldkeri þess. Heimili félagsins skal vera hjá framkvæmdastjóra eða formanni félagsins.
Þegar um meiri háttar ákvarðanir er að ræða, t.d. fjárhagslegs eðlis, er stjórn skylt að boða til félagsfundar og skal til hans boðað á sama hátt og aðalfundar. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu á slíkum fundi. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum.
6. Félagsgjöld.
Ákvörðun um upphæð félagsgjalda einstaklinga er tekin á aðalfundi. Fyrirtæki, félög og stofnanir greiða félagsgjöld, sem í hverju tilfelli ákvarðast í samkomulagi við stjórnina.
7. Annað.
Tillaga um að leggja félagið niður eða slíta því, þarf að samþykkja á tveimur aðalfundum í röð til að öðlast gildi. Gerist það skulu eignir félagsins renna til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Tækniskóla Íslands eða annarra sambærilegra mennta- og/eða rannsóknastofnana sem sinna rannsóknum á steinsteypu skv. nánari ákvörðun stjórnar.
Samþykkt á aðalfundi 27.04.1981.
Breytt á aðalfundi 22.05.1996.
Breytt á aðalfundi 30.05.2001.
Breytt á aðalfundi 09.05.2019.