Frá félaginu

 Kæru félagar,
 
Stjórn félagsins hefur þegar hist í tvígang og er farin að undirbúa starf vetrarins. Stefnt er að því að halda webinar miðvikudaginn 1. nóvember kl. 9.00-10.30, nánar auglýst síðar en áhugi er innan stjórnar að skoða endurnýtingu og -vinnslu í steinsteypu. 

Einnig er stefnt að því að halda vinnustofu í samvinnu við HMS og Samtök iðnaðarins undir yfirskriftinni „Vistvæn steypa – eflum samtalið“ miðvikudaginn 15. nóvember kl. 8.30-10.30 hjá SI. Um er að ræða framhald af umræðum á síðasta Steinsteypudegi. Vinnustofan verður auglýst nánar síðar með dagskrá. 

Samhliða þessu er stjórnin farin að huga að næsta Steinsteypudegi, bæði efnistökum og dagsetningu. Ekki er búið að negla niður dagsetningu en vetrarfrí í skólum landsins þýða að breyta þarf frá hefðum félagsins um þriðja föstudag í febrúar. Áhugasamir geta sett sig í samband við félagið með tillögur að erindum og greinum í Sigmál.

Stofnaðar hafa verið valgreiðslukröfur í heimabönkum félagsfólks og er það von stjórnar að fólk taki þessu vel og greiði umbeðna upphæð, 4000 kr. Þeir sem ekki sjá kröfuna í bankanum sínum (stillingaratriði að hafna valgreiðslukröfum) geta sett sig í samband við félagið til að nálgast greiðsluupplýsingar og leggja inn á reikning félagsins beint.

Að lokum minnum við á youtube síðu félagsins þar sem má nálgast upptökur af eldri webinörum. Við minnum líka á upptökur frá fundum ECSN sem eru samtök steinsteypufélaga í Evrópu. Á vegum þeirra eru reglubundnir fundir um sjálfbærnimál, en Íslendingar hafa átt þar nokkur innlegg og Börge J. Wigum hefur nokkrum sinnum verið stjórnandi fundanna.​

Kær kveðja,
Stjórnin

Deila á samfélagsmiðlum: