Miðvikudaginn 1. nóvember kl. 9.00-10.30 verður veffundur félagsins þar sem fjallað verður um endurnýtingu og -vinnslu steinsteypu. Stjórnin hefur fengið Hollendinginn Walter Speelman til að segja okkur frá reynslu þeirra en Hollendingar eru flestum fremri þegar kemur að þessu efni.
Erindi Walters er „Recycled aggregates – Green product – Green opportunities“ og verður á ensku. Að því loknu verða umræður, fyrst gefst okkur færi á að spyrja Walter spjörunum úr og síðan færum við okkur yfir í ástkæra ylhýra og tölum saman á íslensku. Er það von stjórnar að félagsfólk og aðrir áhugasamir fjölmenni á þennan áhugaverða fund, hlekkur á fundinn er neðst í þessari færslu.
Eins og þegar hefur verið sagt frá á fb síðu félagsins, þá verður Steinsteypudagurinn föstudaginn 2. febrúar 2024 á Grand hótel. Við erum þegar farin að taka við ábendingum um erindi og greinar í Sigmál, en næsta tölublað þess verður gefið út á svipuðum tíma, endilega sendið okkur tillögur á netfangið okkar [email protected]
Stjórnin hefur einnig ákveðið að afhenda Steinsteypuverðlaunin 2024, að því gefnu að verðugar ábendingar berist. Verðlaunin verða betur auglýst á næstunni en við hvetjum alla til að huga að því hvað mannvirki eigi að hljóta þau næst, af nægu er að taka.
Að lokum er það stjórn mikið ánægjuefni að tilkynna að Steinsteypufélagið hefur fengið samþykkta inngöngu í fib, en það eru samtök sem vinna að því að auka veg steinsteyptra mannvirkja um allan heim. Samtökin og forverar þeirra hafa verið við lýði allt frá árinu 1952 . Með þessari aðild fær Steinsteypufélagið aðgang að miklu magni af ýmiss konar gögnum og verður það aðgengilegt félagsfólki innan skamms.
Stjórnin.