Steinsteypudagur 2007

Stærsti viðburður Steinsteypufélagsins er hinn árlegi Steinsteypudagur og var hann haldinn 16. febrúar 2007 á Grand Hótel í Reykjavík. Að þessu sinni var ákveðið að hafa líftíma mannvirkja sem þema á Steinsteypudeginum og voru nokkur erindi flutt sem beint og óbeint fjölluðu um atriði sem snerta líftíma mannvirkja.

Haldin voru 13 erindi:

1. Guðni Jónsson, verkfræðingur hjá Rb, fjallaði um útþornun steypu vegna lagningu parkets á ný steinsteypt gólf.
2. Harpa Birgisdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Línuhönnun, upplýsti um CE merkingar byggingarvara, en við munum í auknum mæli verða vör við slíkar merkingar í framtíðinni.
3. Gylfi Sigurðsson, byggingarverkfræðingur hjá Almennu verkfræðistofunni, flutti erindi um nýlegt verk þar sem notuð var undirvatnssteypa.
4. Í framhaldi af erindi Gylfa sagði Stefán Sigurðsson, byggingarverkfræðingur hjá Ístaki, frá framkvæmd undirvatnssteypunnar og sýndi myndir.

Á Steinsteypudeginum voru úthlutaðir tveir 75.000 króna styrkir Steinsteypufélagsins til nemanda sem hafa framkvæmt rannsóknir á steinsteypu í sínu námi. Að þessu sinni gerðu styrkþegarnir grein fyrir sínum rannsóknum:

5. Kristinn L. Guðmundsson fékk styrk vegna lokaverkefnis til BS prófs í jarðfræði við Háskóla Íslands, sem fjallaði um áhrif fylliefna á endingu steypu.
6. Þorvaldur Konráðsson, byggingartæknifræðingur hjá Arnarfelli, fékk styrk fyrir athuganir sínar á þurrsteypu.
7. Dr. Ólafur Wallevik standur að baki Meistaranámi í steinsteypufræðum við Háskólann í Reykjavík í samvinnu við Rb og sagði Ólafur frá fyrirkomulagi þess í sínu erindi.
8. Aðal erlendi fyrirlesari Steinsteypudagsins var Erik Stoklund Larsen, “Chief Project Manager” hjá Cowi í Danmörku. Erik stóð fyrir heilli ráðstefnu í Kaupmannahöfn vorið 2006, sem eingöngu fjallaði um líftíma mannvirkja og fjallaði hans erindi einnig um það málefni.
9. Jörgen Schou, “Business Development Manager” frá UNICON í Danmörku, var seinni erlendi fyrirlesari Steinsteypudagsins og fjallaði hann um reynslu sína af notkun sjálfútleggjandi steypu í Danmörku.
10. Dr. Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur hjá Rb, er ómissandi þegar umræðuefnið er líftími og viðhald mannvirkja og fræddi hann ráðstefnugesti um endingu og viðhaldsþörf mannvirkja.
11. Dr. Börge Johannes Wigum, verkfræðingur hjá VGK-Hönnun, minnti menn á að ekki þurfi mikið til til að kveða upp gamla alkalídrauga frá síðustu öld og sagði frá nýjustu aðferðunum við að meta alkalívirkni í steypu.
12. Hákon Ólafsson, forstjóri Rb, rifjaði upp hvernig tekið var á hinu alræmda alkalívandamáli fyrir um 30 árum síðan.
13. Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Línuhönnun, sagði frá hinni íslensku steiningu sem yfirborðsmeðhöndlun steyptra húsa, en hún hefur gefist vel við íslenskar aðstæður.

Fyrirtækjum var boðið upp á að vera með kynningarbása á Steinsteypudeginum og er ætlunin að bjóða upp á slíkt í framtíðinni.

Gestir Steinsteypudags 2007 voru 95, þar af 20 nemendur.